Með sunnudagskaffinu. Fyrirlestur á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna

Með sunnudagskaffinu.

Fyrirlestur á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna

sl_nordurland_v-01.jpg

Núna er komið haust og þá heldur fyrirlestraröð byggðasafnsins áfram. Að þessu sinni mun Sigurjón Baldur Hafsteinsson koma til okkar. Í fyrirlestrinum mun Sigurjón ræða um þá spurningu hvaða erindi hugmyndir um anarkisma eigi við gamalgróna hefð Íslendinga í að byggja og varðveita torfhús. Hann mun fjalla um hvað felst í hugmyndum um anarkisma og gera að því skóna að anarkismi eigi vel við þegar lýsa á hefðum Íslendinga í byggingu og varðveislu torfhúsa.

 

Sigurjón Baldur er prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands. Hann er doktor í mannfræði og hefur gefið út fjölda bóka og greina.

Fyrirlesturinn verður haldinn sunnudaginn 16. október næstkomandi á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna kl. 14:00.

Allir eru velkomnir, aðgangur að safninu verður ókeypis og verða kaffiveitingar á staðnum.

 

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest!

 

Ath. Verið er að gera upp salernisaðstöðu og anddyri safnsins.

Birt í 2016, Fyrirlestur | Slökkt á athugasemdum við Með sunnudagskaffinu. Fyrirlestur á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna

Listaverk við þjóðveginn

Sýningaropnun á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna

Eins og þið hafið mörg tekið eftir hafa nemendur úr 5. og 6. bekk í Grunnskóla Húnaþings vestra unnið hörðum höndum við að mála myndlistaverk á suðurvegg Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna. Mikil hönnunarvinna og sögukennsla liggur að baki listaverkanna og voru þjóðsögur og örnefni úr héraði innblástur nemenda. Allir nemendurnir hafa staðið sig frábærlega frá upphafi undir stjórn Guðrúnar Óskar Steinbjörnsdóttur, kennara þeirra.

Okkur langar þess vegna að bjóða ykkur á sýningaropnun á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna kl. 15:00 sunnudaginn 12. júní næstkomandi.
Ókeypis verður á sýningar safnsins og kaffiveitingar í boði.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra og Villa Valla ehf.
Ath. verið er að gera upp anddyri og salernisaðstöðu safnsins.

Birt í 2016, Viðburður | Slökkt á athugasemdum við Listaverk við þjóðveginn

Vistarbandið

Nú hefst að nýju fyrirlestraröð Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna Með Sunnudagskaffinu.

Dr. Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur og stundakennari við Háskóla Íslands heldur fyrirlesturinn Bændur og vinnuhjú í Miðfirði á 19. öld.

Fyrirlesturinn verður haldinn sunnudaginn 28. febrúar næstkomandi á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna kl 14:00. Allir eru velkomnir og verður kaffisala á staðnum.

Í erindinu fjallar Vilhelm um vistarbandið svokallaða, þá skyldu allra 18 ára og eldri sem ekki höfðu búsforræði eða annan löglegan atvinnuveg að ráða sig til ársvista hjá bændum, eins og það birtist í heimildum úr Miðfirði í Húnavatnssýslu á 19. öld. Vistarbandið á sér langa sögu en var einna strangast á tímabilinu 1783 til 1866. Áhersla verður lögð á þá félagslegu togstreitu sem fylgdi vistarbandinu og birtist ekki eingöngu í sambandi bænda og hjúa þeirra heldur einnig í sambandi bænda við fulltrúa yfirvalda. Tekin verða valin dæmi úr Miðfirðinum um vinnuhjú sem reyndust húsbændum sínum óþýður ljár í þúfu, um bændur og hjú sem stóðu saman gegn valdboði hreppstjóra og sýslumanns, og um einstaklinga sem lifðu á jaðri þessa kerfis sem flakkarar eða ómagar. Þannig verður reynt að skapa mynd af hlutskipti alþýðufólks í Húnavatnssýslu á 19. öld og öðlast dýpri skilning á daglegu amstri þeirra.

Við minnum á að sýningin  “Mitt er þitt og þitt er mitt – konur á fyrri tíð”er opin á safninu og fjallar um líf og störf kvenna á fyrri tíð.

Birt í 2016, Fyrirlestur | Slökkt á athugasemdum við Vistarbandið

“Mitt er þitt og þitt er mitt” – Konur á fyrri tíð

Kvennasyning

Birt í 2016, Viðburður | Slökkt á athugasemdum við “Mitt er þitt og þitt er mitt” – Konur á fyrri tíð

Hollvinasamtök Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna

Nýstofnuð Hollvinasamtök Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna.

Það er við hæfi á þessum dásamlega haustdegi að tilkynna ykkur að Hollvinasamtök byggðasafnsins voru formlega stöfnuð þriðjudaginn 29.september 2015.

Hér á myndinni má líta fyrstu stjórnina, gott fólk með hagsmuni byggðasafnsins að leiðarljósi.

Frá vinstri til hægri á myndinni eru: Kristín Ólafsdóttir gjaldkeri, Benjamín Kristinsson meðstjórnandi, Þorsteinn Sigurjónsson meðstjórnandi, Vilhelm Vilhelmsson ritari og Ragnar Bragi Ægisson formaður.
Félögum sem vilja ganga til liðs við samtökin er bent á að hafa samband við stjórn Hollvinasamtakanna í síma 844-9238 eða með tölvupósti á ragnarbragi@gmail.com

Birt í 2015 | Slökkt á athugasemdum við Hollvinasamtök Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna