Sláturtíð

Eftir fyrstu göngur tóku haustannir við og voru sláturstörfin þar veigamikill þáttur. Þeir sem áttu fé til innlagnar ráku það í kaupstað og tók það allt upp í nokkra daga frá afskekktum bæjum. Slátrað var á blóðvelli gjarnan nálægt sjónum og gekk mikið á þar sem margir bændur unnu við þetta óþrifalega verk í misjöfnum veðrum.

Lengst af voru kindur skornar á háls við aflífun en í lok 19. aldar fann Einar B Gunnlaugsson óðalsbóndi á Hraunum í Fljótum upp helgrímuna sem þótti mannúðlegra tæki. Var þetta leðurgríma sem smeygt var uppá snoppu kindarinnar og hélt slátrarinn annarri hendi í handfang sem teygði grímuna upp fyrir höfuð. Nam þá járnpinni við ennið og var kindin rotuð með því að slá fast á pinnann með sleggju eða þungri kjullu. Á grímuna sem hér má sjá vantar reyndar pinnan, en holan fyrir hann er greinileg.

Allt af skepnunni var nýtt, gærur voru m.a. rakaðar með þar til gerðum flugbeittum hníf. Sátu menn við þá iðju og rökuðu gærurnar á hnjám sér.”Meðalverk handa fullorðnum manni þótti að slátra 10 sauðum á dag og raka allar gærurnar að kveldi við álnarlangt kerti” (Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir þriðja úgáfa 1961, bls 92)

Myndir frá Byggðasafninu og úr Þjóðlífi og þjóðháttum.