Landpóstar

Vikurnar fyrir jólin bætir jafnt og þétt í pósttöskur landpósta nútímans sem þeytast með pakka og bréf sem streyma um, út og inn í landið. Starfi þeirra er vissulega að hluta sá sami og gömlu landpóstanna en starfsskilyrðin orðin nokkuð önnur.

Fjölmargar sögur eru til af þrekraunum landpóstanna í misjöfnum veðrum og færð, yfir óbrúuð vatnsföll, fjallvegi og forvaða við skyldustörf. Oft fengu ferðalangar að fylgja póstinum eftir sem naut trausts vegna ratvísi og harðfylgni, en slíkt jók mjög á ábyrgð hans og gat orðið honum til trafala væru aðstæður þess eðlis.

Fór það að mestu eftir landssvæðum og árstíð hver ferðamáti póstsins var, ýmist gangandi, ríðandi eða gangandi með trússhest. Skíði komu sér vel á tíðum og mannbroddar voru ómissandi þegar ísalög og klammi torvelduðu. Tveir hlutir einkenndu þó póstinn umfram annað, lúðurinn og pósttaskan. Með lúðrinum lét pósturinn vita af ferðum sínum og í töskunni sem hann bar á sér voru verðmætustu sendingarnar, peningar og bréf. Einn þekktasti pósturinn hér um slóðir var án efa Benedikt Strandapóstur sem sinnti póstferðum allt frá Stað og norður í Ófeigsfjörð á árunum 1918-1942. Meðan póstferðirnar voru 15 á ári fór hann fótgangandi 7 mánuði ársins og bar á sjálfum sér 35-40 kg.  af pósti.

 

Póstlúðurinn sem hér er á myndinni er á frá Núpsdalstungu og hefur væntanlega verið í eigu Björns Jónssonar sem flutti póst sem safnað var þar saman að Stað í Hrútafirði í veg fyrir norðan og sunnanpóst. Greinargóð frásögn er í Söguþætti landpósta öðru bindi af hrakningum hans á eyrunum neðan við Staðarbakka í byrjun desember 1925.

Ólafur Ólafsson póstur á Mellandi á Hvammstanga sem fór með og sótti póst að Lækjarmóti.