Að þreyja þorrann

Að þreyja þorrann og góuna er því tilvísun í þá von að tækist að fleyta mönnum og skepnum yfir þessa að jafnaði hörðustu vetrarmánuði væri, með hækkandi sól, betri tíð í vændum til lands og sjávar.

Á síðustu áratugum hafa þorrablótin rutt sér mjög til rúms þar sem mikið er gert úr svokölluðum þorramat sem í raun er að uppistöðu til hinn aldagamli hversdagsmatur íslendinga, verkaður og varðveittur á sérstakan hátt. Geymsla matvæla fyrir tíma frysti og kælitækja var vandaverk og byggði einkum á fimm mismunandi aðferðum

SÖLTUN: Gömul og velþekkt aðferð, en vegna skorts á eldivið til saltgerðar og litlum innflutningi fram á 18. öld var saltskortur til þess að aðrar varðveisluaðferðir matar urðu yfirgnæfandi á Íslandi.ÞURRKUN Harðfiskur var ein algengasta fæða landsmanna og mikilvæg verslunarvara. Fiskurinn var flattur og hengdur upp í hjalla til þurrkunar og tækist vel til geymdist hann lengi. Minna var um þurrkun á kjöti sem þó var alsiða í nágrannalöndum s.s. skerpukjötið í Færeyjum.

REYKING Reyking matvæla er þekkt um allan heim og mjög gömul geymsluaðferð. Hérlendis var einkum reykt yfir hlóðum í eldhúsi. Þar gaf að líta margskonar kjötmeti en einnig fisk s.s. lax, silung og rauðmaga.

KÆSING Gerjun og eða kæsing er þekkt geymsluaðferð erlendis og tíðkast hér einkum við verkun á hákarli og skötu sem nauðsynlegur ferill í niðurbroti á köfnunarefnissamböndum sem þarf að losa fiskinn við áður en hægt er leggja hann sér til munns. Egg og jafnvel hvalur voru einnig kæst.

SÚRSUN Langtímageymsla matvæla í súrri mysu sem féll til við skyrgerð virðist vera sér íslensk matarverkun a.m.k. á seinni öldum. Allt mögulegt var geymt í súr og á mannmörgum heimilum var björgulegt um að litast ef margar tunnur með súrmat stóðu í búri að hausti fullar af innmat, sviðum, kjöti, hval, sel og jafnvel eggjum. Búrið geymir býsna margt, bæði ker og annað þarft, aska, diska, öskjurnar, ámur trog og skjólurnar. Kirnur líka og kæsidallar kúra þar. (Sr. Stefán Ólafson 1619–1688)