Æðarvarp og dúntekja

Víða við Húnaflóa og norður um Strandir eru allnokkur og uppí mikil hlunnindi af æðarvarpi og dúntekju. Æðarfugl hefur verið alfriðaður allt frá 1847 og þegar vorar fer hann að leita uppi varpstöðvarnar í hólmum og friðlöndum með ströndum fram. Samvinna mannsins og þessara villtu fugla er einstök. Maðurinn lætur í té vel búið athvarf og vernd fyrir ágangi vargs, en fuglinn greiðir fyrir með dúninum, Sjáfbærni og náttúruvitund eins og best gerist. Mikil vinna er hjá æðarbændum á vorin að undirbúa varplandið. Hreinsa upp úr gömlum hreiðrum, búa til ný, flagga og setja hey í hreiður, en ekki minnst vaka yfir varplöndum og verja fyrir ágangi minka, refs og flugvargs.

Tíðarfar hefur áhrif á hvenær fuglinn fer að verpa og getur það verið allt frá apríllokum og jafnvel fram í júní. Nokkuð er misjafnt hvernig dúntekju er háttað og eru hefðir þar ríkjandi, en oftast er fyrst „tekið í kring“ og í seinni göngu allur dúnn og hey sett í staðinn. Þá tekur við mikil vinna við þurrkun og hreinsun sem vélar hafa að miklu leiti yfirtekið nema loka yfirferðina sem er handtínsla fjaðra og óhreininda sem vélarnar ná ekki úr og er seinlegt nákvæmnisverk.

(Myndirnar eru frá Dröngum)