Heyskapur

Hvenær sláttur hófst á bæjum fór vissulega eftir sprettu og tíðarfari, en algengt var að byrja hann um tólftu sumarhelgina. Rúningur og ullarþvottur var að baki og sumir stilltu sig inn á að „bera niður“ kvöldið sem komið var heim úr kaupstaðaferðinni, en mikið var lagt uppúr að hefja slátt á laugardegi. Fyrst var bærinn „losaður úr grasi“ heimatúnið svo slegið en engjaheyskapur beið þar til síðsumars. Búskapur er heyskapur svo allt kapp var lagt á að afla vetrarforða sem vissulega var miserfitt, og réðst af landgæðum, tíðarfari og ekki síst þeim mannafla sem í boði var þegar allt var unnið með handverkfærum. En heyskapurinn var samt umlukinn ákveðinni rómantík. Töðuilmur, ærsl í ungu fólki og gleði yfir góðu dagsverki ekki síst þegar fyrningardroparnir féllu að hirðingu lokinni lifa í minningu þeirra sem tóku þátt.