Hrói höttur Íslands? – Bóndinn, spendýrin og fleiri undur alheimsins

Með sunnudagskaffinu

Sunnudaginn 16.ágúst kl. 14 hefjast að nýju hinir geisivinsælu fyrirlestrar Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna og verða nú á Pottinum á Blönduósi. Sagnfræðingarnir Árni H. Kristjánsson og Vilhelm Vilhelmsson segja frá spennandi og skemmtilegu fólki er bjó í austur-sýslunni á fyrri tíð. Fyrirlestrarnir eru ókeypis og eru allir velkomnir. Kaffisala er á staðnum.

Vilhelm Vilhelmsson: Hrói höttur Íslands? And-hetjan Ísleifur seki Jóhannesson
Ísleifur Jóhannesson frá Breiðavaði í Langadal var þjóðsagnapersóna í lifanda lífi á fyrstu áratugum 19. aldar. Jafnvel andlát hans varð tilefni reyfarakennda flökkusagna, en hann endaði ævi sína í rasphúsinu í Kaupmannahöfn þar sem hann fyrirfór sér árið 1829 brennimerktur og marghýddur fyrir þjófnaði og önnur afbrot. Honum var lýst sem glæsi- og þróttmenni sem sneri á ráðamenn og hæddist að þeim. Seinni tíma menn hafa jafnvel líkt honum við Hróa hött. En hver var þessi Ísleifur og um hvað var hann sekur?

Árni H. Kristjánsson: Bóndinn, spendýrin og fleiri undur alheimsins
Á árunum 1845–1852 vann bóndinn Jón Bjarnason (1791–1861) frá Þórormstungu í Vatnsdal fjölbindaverk um náttúrufræði, landafræði og ýmsan annan fróðleik. Jón vann verkið í anda upplýsingarinnar og hugsaði það til uppfræðslu alþýðu. Að baki lá það grundvallarsjónarmið að almenningur væri fær um það að afla sér þekkingar með sjálfsnámi og að aukin þekking leiddi til framfara. Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur rannsakaði formála og kaflann um mannkynið úr fyrsta bindi verksins í MA-ritgerð árið 2010. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvernig óskólagengið alþýðufólk á Íslandi um miðja 19. öld gat nýtt sér tiltæka þekkingu og unnið verk af þessu tagi. Árni og Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur rannsökuðu síðan verkið frekar þar sem Sigurður tók fyrir myndir úr verkinu. Afraksturinn birtist í bókinni Bóndinn, spendýrin og fleiri undur alheimsins sem kom út sl. haust á vegum Háskólaútgáfunnar og var 17 bókin í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenning

Þessi færsla var birt undir 2015, Fyrirlestur. Bókamerkja beinan tengil.