Sýningaropnun á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna

Þann 27. maí næstkomandi kl. 14:00 verður sýningin Þar sem firðir og jöklar mætast. Grænlandsdvöl Rannveigar H. Líndal 1921-1923 opnuð.

Rannveig var merkiskona sem fór ótroðnar slóðir og lifði viðburðaríku lífi.

Árið 1921 bauðst henni starf við kennslu í Grænlandi. Þar dvaldi hún í tvö ár og hélt dagbók um dvöl sína á meðan auk þess sem hún skrifaði fjöldamörg bréf heim til Íslands, tók fjölda ljósmynda og teiknaði myndir.

Sýningin er byggð á þessum heimildum sem varðveittar eru á Héraðsskjalasafni Vestur-Húnavatnssýslu.

Aðgangur verður ókeypis að safninu og léttar veitingar í boði. Við vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Birt í 2017, Viðburður | Slökkt á athugasemdum við Sýningaropnun á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna

Menningarstyrkur Heimafóðurs ehf. til Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi og Byggðasafnsins á Reykjum.

menningarstyrkur

menningarstyrkur

Fimmtudaginn 29. desember sl. veitti félagið Heimafóður ehf. tvo styrki, annarsvegar til Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi og hinsvegar til Byggðasafnsins á Reykjum í Hrútafirði. Styrkupphæðin til hvors safns um sig nemur 740 þúsund krónum. Styrkféð er ætlað til viðhalds og endurbóta á húsakosti safnanna.

Starfsemi Heimafóðurs ehf. hófst í byrjun níunda áratugarins og fólst einkum í því að halda utan um vélasamstæðu sem malaði og kögglaði þurrt hey hjá bændum í Húnavatnssýslum. Þannig gat heimaaflað fóður fullnægt meiru af fóðurþörf búfjárins. Eftir að rúllutæknin kom til skjalanna var sjálfhætt með þessa framleiðslu. Fyrr á þessu ári kom stjórn félagsins saman og þótti fara vel á því að skipta fjármunum þess milli þessara safna.

Allir stjórnarmenn félagsins ásamt forráðamönnum safnanna og fleiri gestum komu saman í Sjávarborg á Hvammstanga þar sem afhending styrkjanna fór fram.

Eftir afhendinguna þáðu viðstaddir kaffiveitingar og áttu saman notalega stund þar sem rifjað var upp sitthvað úr búskaparsögu héraðsins sem og um starfsemi Heimafóðurs.

Myndirnar eru fengnar frá Heimilisiðnaðarsafninu.

Birt í 2016 | Slökkt á athugasemdum við Menningarstyrkur Heimafóðurs ehf. til Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi og Byggðasafnsins á Reykjum.

Gleðileg jól

Gleðileg jól

Við óskum öllum velunnurum safnsins gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Þökkum ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða.

Starfsfólk Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna.

Birt í 2016 | Slökkt á athugasemdum við Gleðileg jól

Íslensk Gull- og Silfursmíði

Með sunnudagskaffinu: fyrirlestur á byggðasafni

Sunnudaginn 27. nóvember kl. 14:00 mun Þór Magnússon, fyrrv. þjóðminjavörður, halda fyrirlestur um íslenska gull- og silfursmíði á byggðasafninu á Reykjum. Í fyrirlestrinum mun Þór leggja sérstaka áherslu á gull- og silfursmiði úr héraði en byggðasafnið varðveitir fjölda gripa frá þeim.

Þór hefur um árabil stundað rannsóknir á íslenskri gull- og silfursmíði og gaf Þjóðminjasafnið út rannsókn hans árið 2013. Bókin er í tveimur bindum og nefnist Íslenzk silfursmíði.
Aðgangur að safninu verður ókeypis og kaffiveitingar í boði.

Birt í 2016, Fyrirlestur | Slökkt á athugasemdum við Íslensk Gull- og Silfursmíði

Stund klámsins


Kristín Svava Tómasdóttir, sagnfræðingur og fyrirlesari.


Fyrirlestraröð Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna með sunnudagskaffinu heldur áfram. Að þessu sinni mun sagnfræðingurinn Kristín Svava Tómasdóttir halda fyrirlesturinn stund klámsins.

Hún vinnur um þessar mundir að bók um sögu kláms á Íslandi, með sérstakri áherslu á 7. og 8. áratug 20. aldar, en fyrirhugað er að bókin komi út árið 2017. Í fyrirlestrinum mun Kristín Svava fjalla um klámsögu og ritun hennar, ræða ýmis vandkvæði sem geta komið upp við þessa sagnaritun og gera grein fyrir helstu kenningum um sögu kláms, með völdum dæmum úr íslenskri klámsögu frá miðöldum til okkar daga.

Kristín Svava Tómasdóttir útskrifaðist með MA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2014. Hún er sjálfstætt starfandi fræðimaður í Reykjavík en starfar einnig á Landnámssýningunni í Aðalstræti.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Menningarfélag Húnaþings vestra, 30. október næstkomandi kl. 14:00 í nýju húsnæði félagsins, Eyrarlandi 1 (sunnanvert húsið, efri hæð).

Að loknum fyrirlestri mun menningarfélagið halda kynningu á starfsemi félagsins og sýna húsnæðið.

Vonumst til að sjá sem flesta!
Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna og Menningarfélag Húnaþings vestra

Birt í 2016, Fyrirlestur | Slökkt á athugasemdum við Stund klámsins