Grjóthleðslunámskeið

ATHUGIÐ

Námskeiðið er fullbókað en tekið er inn á biðlista og haft verður samband ef einhver forfallast. Haft verður samband eftir tímaröð, fyrstir koma fyrstir fá.

Vegna mikillar eftirspurnar er möguleiki á að haldið verði annað námskeið. Þeir sem skrá sig á biðlista fá tilkynningu um það áður en það verður auglýst. Vinsamlegast takið fram nafn, símanúmer og netfang.

mynd fengin að láni frá mbl.is
 Mynd fengin að láni frá mbl.is

Þann 29. október næstkomandi heldur Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna grjóthleðslunámskeið. Drangabræðurnir og grjóthleðslumeistararnir Benjamín og Guðjón Kristinssynir stjórna námskeiðinu. Benjamín, deildarstjóri safnsins, og Guðjón hafa starfað við grjóthleðslu um árabil, þekkja vel til helstu aðferða og eru hleðsluverk eftir þá að finna um land allt. Þeir eru báðir sagnamenn miklir, segja ekki sögur nema þær séu stórlega ýktar eða verulega bættar. Því á ekki eftir að skorta skemmti- eða umræðuefni á námskeiðinu.

Námskeiðið verður haldið á safninu, á Reykjum í Hrútafirði, og er haldið í tengslum við varðveislu fallbyssustæðis frá tímum hernámsins sem er í fjörunni við hlið safnsins. Hlaðinn verður frístandandi, boginn skjólveggur vestan við byggðasafnið við hlið fallbyssustæðisins. Ætlunin er að búa til fallegt útivistarsvæði og miðla grjóthleðslukunnáttu til áhugasamra. Námskeiðið er án endurgjalds og létt hressing í boði fyrir þátttakendur.
Sólveig H. Benjamínsdóttir veitir upplýsingar og tekur á móti skráningu á netfangið solveig@hunathing.is eða í síma 771-4961.
Við vonum að sjá ykkur sem flest. Við lofum góðu puði eftir erfiða kosninganótt!

Staður: Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna, Reykjum í Hrútafirði.
Tími: 11:00. Námskeiðinu lýkur þegar veggurinn er tilbúinn 🙂
Án endurgjalds

Birt í 2017, Viðburður | Slökkt á athugasemdum við Grjóthleðslunámskeið

Myndir frá 27. maí.

Þar sem firðir og jöklar mætast. Grænlandsdvöl Rannveigar H. Líndal 1921-1923

Birt í 2017, Viðburður | Slökkt á athugasemdum við Myndir frá 27. maí.

Sýningaropnun á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna

Þann 27. maí næstkomandi kl. 14:00 verður sýningin Þar sem firðir og jöklar mætast. Grænlandsdvöl Rannveigar H. Líndal 1921-1923 opnuð.

Rannveig var merkiskona sem fór ótroðnar slóðir og lifði viðburðaríku lífi.

Árið 1921 bauðst henni starf við kennslu í Grænlandi. Þar dvaldi hún í tvö ár og hélt dagbók um dvöl sína á meðan auk þess sem hún skrifaði fjöldamörg bréf heim til Íslands, tók fjölda ljósmynda og teiknaði myndir.

Sýningin er byggð á þessum heimildum sem varðveittar eru á Héraðsskjalasafni Vestur-Húnavatnssýslu.

Aðgangur verður ókeypis að safninu og léttar veitingar í boði. Við vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Birt í 2017, Viðburður | Slökkt á athugasemdum við Sýningaropnun á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna

Menningarstyrkur Heimafóðurs ehf. til Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi og Byggðasafnsins á Reykjum.

menningarstyrkur

menningarstyrkur

Fimmtudaginn 29. desember sl. veitti félagið Heimafóður ehf. tvo styrki, annarsvegar til Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi og hinsvegar til Byggðasafnsins á Reykjum í Hrútafirði. Styrkupphæðin til hvors safns um sig nemur 740 þúsund krónum. Styrkféð er ætlað til viðhalds og endurbóta á húsakosti safnanna.

Starfsemi Heimafóðurs ehf. hófst í byrjun níunda áratugarins og fólst einkum í því að halda utan um vélasamstæðu sem malaði og kögglaði þurrt hey hjá bændum í Húnavatnssýslum. Þannig gat heimaaflað fóður fullnægt meiru af fóðurþörf búfjárins. Eftir að rúllutæknin kom til skjalanna var sjálfhætt með þessa framleiðslu. Fyrr á þessu ári kom stjórn félagsins saman og þótti fara vel á því að skipta fjármunum þess milli þessara safna.

Allir stjórnarmenn félagsins ásamt forráðamönnum safnanna og fleiri gestum komu saman í Sjávarborg á Hvammstanga þar sem afhending styrkjanna fór fram.

Eftir afhendinguna þáðu viðstaddir kaffiveitingar og áttu saman notalega stund þar sem rifjað var upp sitthvað úr búskaparsögu héraðsins sem og um starfsemi Heimafóðurs.

Myndirnar eru fengnar frá Heimilisiðnaðarsafninu.

Birt í 2016 | Slökkt á athugasemdum við Menningarstyrkur Heimafóðurs ehf. til Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi og Byggðasafnsins á Reykjum.

Gleðileg jól

Gleðileg jól

Við óskum öllum velunnurum safnsins gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Þökkum ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða.

Starfsfólk Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna.

Birt í 2016 | Slökkt á athugasemdum við Gleðileg jól