Undirbúningur vetrarkomu var kapphlaup við tíma. Fyrirvaralítið gat veturinn skollið á með frosti og snjó sem um leið setti nauðsynleg verk í uppnám væri þeim ekki lokið. Að lokinni sláturtíð var fjölmörgum verkum sinnt en þar á meðal voru viðgerðir á húsum. Byggingarefnið, sem einkum var torf og grjót var misaðgengilegt og flutningur því verulegur hluti vinnunnar. Ef sækja þurfti grjót um langa vegaleng var ekki óalgengt að aka því á sleða að vetrinum á byggingarstað. Almennt var ráðist í nýbyggingar og stærri viðgerðir að vori og í Grágás má finna viðurlög ef menn sinntu ekki viðhaldi á löggörðum svo búfjárheldir væru yfir sumarið.
Á haustin var því einkum unnið að lagfæringum á húsum sem rýrnað höfðu eða orðið fyrir ákomum, hrunið frá dyragötum, þekjur gatast o.þh. Góð torfrista var verðmæt og sömuleiðis verklagnir hleðslumenn. Segja má að fátt hafi breyst í vinnubrögðum og verkfærum þeirra sem enn kunna slíka iðju og gefa sig í hana. Má þar nefna torfljái, undirristuspaða, pála og rekur. Torf var flutt ýmist á torfkrókum, um þverbak eða á kerrum væru þær tiltækar.