Eitt af fyrstu vorverkum til sveita er frost var farið úr var túnvinnan eða vallarávinnsla sem kölluð var, heldur óþrifalegt verk. Húsdýraáburður í hlössum og skítur sem lá á túnum og völlum var mulinn niður í túnin með fótunum eða verkfæri sem kallaðist klára.
Á sumum bæjum voru þúfurnar jafnvel smurðar „skammtað uppá“. Þar lá áburðurinn uns gras fór að spretta. Það sem þá var eftir kallaðist afrak. Því var rakað saman með hrífum og börn og unglingar báru það heim að bæ í trogum eða sambærilegum ílátum þar sem það var nýtt til eldiviðar.
Það létti mönnum töluvert störfin þegar taðkvörnin var fundin upp hér norðanlands um 1880. (Gísli Guðmundsson á Ljótsstöðum) Hún var smíðuð eftir ostakvörninni sem líst er í Andvara III 123-4. Þessi kvörn muldi taðið, oftast ofan í trog eða handbörur og báru menn gjarnan trogið á annari mjöðminni og dreifðu taðinu með höndunum á tún og engjar á meðan gengið var hægt áfram.
Síðar um vorið eða snemmsumars þurfti að stinga út tað úr fjárhúsunum. Við verkið var notaður svokallaður páll, stungupáll, heldur luralegt verkfæri sem minnti á skóflu, með járnblaði og ástigi, en tréskafti. Pállinn var notaður til að stinga taðið í hnausa sem síðan voru bornir til dyra með reku, gaffli eða jafnvel í fanginu þar sem minna var um verkfæri eða börn notuð til starfans. Hnausarnir voru síðan klofnir í flögur sem voru þurrkaðar og vel gengið frá í hrauk að því loknu enda dýrmætur eldiviðarforði til vetrarins.