Hrognkelsaveiðar

Vorverk á sumum bæjum við sjávarsíðuna voru um margt frábrugðin þeim sem tíðkaðist inn til landsins. Komu þar einkum til sjávar og strandnytjar sem sinna þurfti samhliða öðrum búverkum frá því snemma á vorin og fram á sumar. Hrognkelsaveiðar voru víða stundaðar við Húnaflóa og á Ströndum og reyndust drjúgt búsílag þegar nýmeti var orðið af skornum skammti og vorsultur yfirvofandi. Rauðmaginn gengur fyrr á grunnslóð og sumstaðar var jafnvel hægt að stinga hann á grynningum eða í lónum þegar féll frá. Þekkt er og að börn og unglingar fældu svartbak sem klófest hafði rauðmaga á grynningum borið á land til átu.

Einhverjar elstu heimilidir um netaveiði á hrognkelsum sem vitað er um eru frá 1670 og segja frá bóndanum á Tannstaðabakka við Hrútafjörð sem í bréfi til amtmanns er talinn hafa lagt net sín við Djúpsker. Rauðmaginn var borðaður nýr, saltaður eða reyktur en grásleppan bæði söltuð og sigin. Hrognin sem síðar urðu eftirsóknarverðasti hlutinn og þá söltuð til útflutnings voru fyrir þann tíma nýtt á ýmsa lund. Má þar nefna hrognaost, búaost, hrognaysting, hrognagraut og hrognastropa. Á Ströndum þekktist að útbúa skó úr hveljunni með endingu sambærilega roðskóm. Væri veiði góð var afskurður og sull nýtt sem skepnufóður.

(Heimild: Íslenskir sjávarhættir 4. bindi)