Með sunnudagskaffinu: fyrirlestur á byggðasafni

Sunnudaginn 27. nóvember kl. 14:00 mun Þór Magnússon, fyrrv. þjóðminjavörður, halda fyrirlestur um íslenska gull- og silfursmíði á byggðasafninu á Reykjum. Í fyrirlestrinum mun Þór leggja sérstaka áherslu á gull- og silfursmiði úr héraði en byggðasafnið varðveitir fjölda gripa frá þeim.

Þór hefur um árabil stundað rannsóknir á íslenskri gull- og silfursmíði og gaf Þjóðminjasafnið út rannsókn hans árið 2013. Bókin er í tveimur bindum og nefnist Íslenzk silfursmíði.
Aðgangur að safninu verður ókeypis og kaffiveitingar í boði.

Stund klámsins


Kristín Svava Tómasdóttir, sagnfræðingur og fyrirlesari.


Fyrirlestraröð Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna með sunnudagskaffinu heldur áfram. Að þessu sinni mun sagnfræðingurinn Kristín Svava Tómasdóttir halda fyrirlesturinn stund klámsins.

Hún vinnur um þessar mundir að bók um sögu kláms á Íslandi, með sérstakri áherslu á 7. og 8. áratug 20. aldar, en fyrirhugað er að bókin komi út árið 2017. Í fyrirlestrinum mun Kristín Svava fjalla um klámsögu og ritun hennar, ræða ýmis vandkvæði sem geta komið upp við þessa sagnaritun og gera grein fyrir helstu kenningum um sögu kláms, með völdum dæmum úr íslenskri klámsögu frá miðöldum til okkar daga.

Kristín Svava Tómasdóttir útskrifaðist með MA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2014. Hún er sjálfstætt starfandi fræðimaður í Reykjavík en starfar einnig á Landnámssýningunni í Aðalstræti.

Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Menningarfélag Húnaþings vestra, 30. október næstkomandi kl. 14:00 í nýju húsnæði félagsins, Eyrarlandi 1 (sunnanvert húsið, efri hæð).

Að loknum fyrirlestri mun menningarfélagið halda kynningu á starfsemi félagsins og sýna húsnæðið.

Vonumst til að sjá sem flesta!
Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna og Menningarfélag Húnaþings vestra

Listaverk við þjóðveginn

Sýningaropnun á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna

Eins og þið hafið mörg tekið eftir hafa nemendur úr 5. og 6. bekk í Grunnskóla Húnaþings vestra unnið hörðum höndum við að mála myndlistaverk á suðurvegg Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna. Mikil hönnunarvinna og sögukennsla liggur að baki listaverkanna og voru þjóðsögur og örnefni úr héraði innblástur nemenda. Allir nemendurnir hafa staðið sig frábærlega frá upphafi undir stjórn Guðrúnar Óskar Steinbjörnsdóttur, kennara þeirra. Okkur langar þess vegna að bjóða ykkur á sýningaropnun á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna kl. 15:00 sunnudaginn 12. júní næstkomandi.
Ókeypis verður á sýningar safnsins og kaffiveitingar í boði.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra og Villa Valla ehf.
Ath. verið er að gera upp anddyri og salernisaðstöðu safnsins.

Með sunnudagskaffinu. Fyrirlestur á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna

Núna er komið að öðrum fyrirlestri í fyrirlestraröð byggðasafnsins þetta árið. Að þessu sinni mun Sigrún Antonsdóttir koma til okkar og fjalla um Spánverjavígin 1615 á Vestfjörðum. Baskar stunduðu um tíma hvalveiðar hér við land við litlar vinsældir Danakonungs. Þann 21. september 1615 fórust Basknesk hvalveiðiskip í ofsaveðri í Reykjafirði á Ströndum. Stuttu síðar voru skipsbrotsmenn myrtir af bændum héraðsins eftir skipun Ara Magnússonar í Ögri. Í fyrirlestrinum mun Sigrún fara yfir sögu þessara atburða.

Sigrún hefur B.A gráðu í fornleifafræði frá Háskóla Íslands og M.A gráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá sama skóla. M.A verkefni hennar var gerð sögusýningar um Spánverjavígin fyrrnefndu, en sýningin er nú uppivið í anddyri byggðasafnsins. Fyrirlesturinn verður haldinn sunnudaginn 10. apríl næstkomandi á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna kl. 14:00. Allir eru velkomnir og verður kaffisala á staðnum.

Við minnum á að sýningin  “Mitt er þitt og þitt er mitt – konur á fyrri tíð”er opin á safninu og fjallar um líf og störf kvenna á fyrri tíð.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest!


 


Nú hefst að nýju fyrirlestraröð Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna Með Sunnudagskaffinu.

Dr. Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur og stundakennari við Háskóla Íslands heldur fyrirlesturinn Bændur og vinnuhjú í Miðfirði á 19. öld.

Fyrirlesturinn verður haldinn sunnudaginn 28. febrúar næstkomandi á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna kl 14:00. Allir eru velkomnir og verður kaffisala á staðnum.

Í erindinu fjallar Vilhelm um vistarbandið svokallaða, þá skyldu allra 18 ára og eldri sem ekki höfðu búsforræði eða annan löglegan atvinnuveg að ráða sig til ársvista hjá bændum, eins og það birtist í heimildum úr Miðfirði í Húnavatnssýslu á 19. öld. Vistarbandið á sér langa sögu en var einna strangast á tímabilinu 1783 til 1866. Áhersla verður lögð á þá félagslegu togstreitu sem fylgdi vistarbandinu og birtist ekki eingöngu í sambandi bænda og hjúa þeirra heldur einnig í sambandi bænda við fulltrúa yfirvalda. Tekin verða valin dæmi úr Miðfirðinum um vinnuhjú sem reyndust húsbændum sínum óþýður ljár í þúfu, um bændur og hjú sem stóðu saman gegn valdboði hreppstjóra og sýslumanns, og um einstaklinga sem lifðu á jaðri þessa kerfis sem flakkarar eða ómagar. Þannig verður reynt að skapa mynd af hlutskipti alþýðufólks í Húnavatnssýslu á 19. öld og öðlast dýpri skilning á daglegu amstri þeirra.

Við minnum á að sýningin  “Mitt er þitt og þitt er mitt – konur á fyrri tíð”er opin á safninu og fjallar um líf og störf kvenna á fyrri tíð.

Kvennasyning

Nýstofnuð Hollvinasamtök Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna.

<align=center>

Það er við hæfi á þessum dásamlega haustdegi að tilkynna ykkur að Hollvinasamtök byggðasafnsins voru formlega stöfnuð þriðjudaginn 29.september 2015. Hér á myndinni má líta fyrstu stjórnina, gott fólk með hagsmuni byggðasafnsins að leiðarljósi. Frá vinstri til hægri á myndinni eru: Kristín Ólafsdóttir gjaldkeri, Benjamín Kristinsson meðstjórnandi, Þorsteinn Sigurjónsson meðstjórnandi, Vilhelm Vilhelmsson ritari og Ragnar Bragi Ægisson formaður.
Félögum sem vilja ganga til liðs við samtökin er bent á að hafa samband við stjórn Hollvinasamtakanna í síma 844-9238 eða með tölvupósti á ragnarbragi@gmail.com

 

Dagskráin á næstunni hjá Byggðasafninu.

Braggar á reykjatanga

 1. Með sunnudagskaffinu, fyrirlestraröðin heldur áfram í Safnaðarheimili Hvammstangakirkju sunnudaginn 27. september 2015 kl 14. Þar verða haldnir tveir sjóðheitir fyrirlestrar sem báðir tengjast okkar safnasvæði. Annars vegar flytur Ragnhildur Bragadóttir sagnfræðingur fyrirlesturinn Sigurlaug, ástkona auðmanns. Hins vegar flytur Friðþór Eydal fyrirlestur um Hersetuna á Ströndum og Norðurlandi vestra, en bók hans um efnið er væntanleg nú á haustmánuðum og verður þá til sölu á safninu. Ókeypis er inn og allir velkomnir. Hægt verður að kaupa kaffi og kleinur á staðnum.

  Fyrirlestur Ragnhildar segir af konu sem var á dögum svo til alla 19.öldina, og ástum og þá barneignum hennar og einna fimm karla – að nafni til – þá helst stórbónda nokkurs í Húnaþingi, eins auðugasta bónda norðanlands á sinni tíð, sem tók konuna trausta taki á unga aldri og gerði að langtíma opinberri frillu sinni. Greint er frá ættum þeirra beggja og umhverfi og þá tíðaranda til að öðlast fyllri mynd og skilja betur söguhetjurnar. Þá er sagt frá hvernig börnum konu þessarar farnaðist, og hugur leiddur að rangfeðrun, því hvernig piltum, ungum vinnumönnum, voru kennd börn kvæntra karla með vinnukonum sínum – til að gæta velsæmis; reynt að ráða í litskrúðugt ástarlíf stórbænda og örlög kvenna þeirra og framhjátöku barna. Hver var staða vinnukvenna á þessum umbrotatíma, tíma hægfara breytinga? Voru þær reyrðar í fjötra; voru þessar konur undirokaðar, kúgaðar, ófrjálsar manneskjur? Vissulega. En voru þær ávallt nauðugar hjásvæfur? Gátu þær á einhvern máta ráðið örlögum sínum, valið sér jafnvel verndara í líki elskhuga á tímum harðræðis, eintæðingsskapar og stéttaskiptingar.
  Fyrirlestur Friðþórs segir frá bresku og bandarísku herliði er dvaldi á Ströndum og Norðurlandi vestra á árum heimsstyrjaldarinnar síðari og setti mark sitt með ýmsum hætti á líf og störf íbúa þessa landshluta líkt og annarsstaðar á þessum víðsjárverðu tímum. Dvölin við Húnaflóa og í Skagafirði var ekki síður eftirminnileg og reynslurík þeim ungu mönnum sem hrifnir voru frá heimkynnum sínum og skildu standa vörð við framandi aðstæður á hjara veraldar í hringiðu mesta hildarleiks mannkynssögunnar. Hersetunni á Ströndum og Norðurlandi vestra hefur oftast verið gerð takmörkuð skil í umfjöllun um hernámið. Reykjaskóli var hersetinn í þrjú ár og stór liðsafli dvaldi á Reykjatanga. Allstór liðsafli dvaldist einnig á Blönduósi og á Sauðárkróki en auk þess voru varðstöðvar á Ströndum, Borðeyri, Hvammstanga, Skagaströnd, Varmahlíð og víðar. Ítarleg frásögn er af sjóslysi á Hrútafirði þar sem 18 hermenn hurfu í hafið og ljósi varpað á missögn um heimsókn söng- og leikkonunnar Marlene Dietrich til Sauðárkróks svo fátt eitt sé nefnt.

 2. Þriðjudaginn 29. September 2015 kl. 20 er boðað til kynningarfundar um stofnun Hollvinasamtaka um Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna. Fundurinn er boðaður í samstarfi safnsins og Ragnars Braga Ægissonar sem býður sig fram til forystu í félaginu. Fundarstaður er Bókasafnið Höfðabraut 6 Hvammstanga.

  Stutt kynning verður á vegum safnsins á því hvernig hollvinafélög starfa á söfnum og hvaða verkefni þau taka að sér og síðan mun Ragnar taka við og skrá hjá sér áhugasama einstaklinga er vilja ganga til liðs við Hollvinasamtökin. Allir eru velkomnir er telja sig geta lagt safninu lið með sjálboðaliðavinnu af ýmsum toga.

 3. Við á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna settum í samstarfi við Baskavinafélagið upp sýningu nú í sumar í anddyri safnsins á Reykjum um Spánarvígin. Á næstunni verður safnið opið á virkum dögum kl. 9-17 fyrir áhugasama um sýningu þessa.

  Núna í vikunni nánar tiltekið 21.september voru rétt 400 ár frá því skip baskneskra hvalveiðimanna braut á hafís á Ströndum, en sá atburður leiddi óbeint til Spánverjavíganna svokölluðu um þremur vikum síðar. Í vikunni var sett upp sýning Baskavinafélagsins um Spánverjavígin í Þjóðarbókhlöðunni í Reykjavík.

 

Með sunnudagskaffinu

Sunnudaginn 16.ágúst kl. 14 hefjast að nýju hinir geisivinsælu fyrirlestrar Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna og verða nú á Pottinum á Blönduósi. Sagnfræðingarnir Árni H. Kristjánsson og Vilhelm Vilhelmsson segja frá spennandi og skemmtilegu fólki er bjó í austur-sýslunni á fyrri tíð. Fyrirlestrarnir eru ókeypis og eru allir velkomnir. Kaffisala er á staðnum.

Vilhelm Vilhelmsson: Hrói höttur Íslands? And-hetjan Ísleifur seki Jóhannesson
Ísleifur Jóhannesson frá Breiðavaði í Langadal var þjóðsagnapersóna í lifanda lífi á fyrstu áratugum 19. aldar. Jafnvel andlát hans varð tilefni reyfarakennda flökkusagna, en hann endaði ævi sína í rasphúsinu í Kaupmannahöfn þar sem hann fyrirfór sér árið 1829 brennimerktur og marghýddur fyrir þjófnaði og önnur afbrot. Honum var lýst sem glæsi- og þróttmenni sem sneri á ráðamenn og hæddist að þeim. Seinni tíma menn hafa jafnvel líkt honum við Hróa hött. En hver var þessi Ísleifur og um hvað var hann sekur?

Árni H. Kristjánsson: Bóndinn, spendýrin og fleiri undur alheimsins
Á árunum 1845–1852 vann bóndinn Jón Bjarnason (1791–1861) frá Þórormstungu í Vatnsdal fjölbindaverk um náttúrufræði, landafræði og ýmsan annan fróðleik. Jón vann verkið í anda upplýsingarinnar og hugsaði það til uppfræðslu alþýðu. Að baki lá það grundvallarsjónarmið að almenningur væri fær um það að afla sér þekkingar með sjálfsnámi og að aukin þekking leiddi til framfara. Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur rannsakaði formála og kaflann um mannkynið úr fyrsta bindi verksins í MA-ritgerð árið 2010. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvernig óskólagengið alþýðufólk á Íslandi um miðja 19. öld gat nýtt sér tiltæka þekkingu og unnið verk af þessu tagi. Árni og Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur rannsökuðu síðan verkið frekar þar sem Sigurður tók fyrir myndir úr verkinu. Afraksturinn birtist í bókinni Bóndinn, spendýrin og fleiri undur alheimsins sem kom út sl. haust á vegum Háskólaútgáfunnar og var 17 bókin í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenning


 

Söguleg safnahelgi á Norðurlands Vestra

Á morgun 11.október 2014 verðum við á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði með leiðsögn fyrir börn kl. 14. Við tölum um gamla tímann, skoðum munina og förum í leiki. Á eftir verður öllum boðið upp á kanilsnúða. Þessi dagskrá á safninu er í tilefni af Sögulegri safnahelgi sem er á Norðurlandi vestra nú um helgina og taka fimmtán söfn og sýningar þátt í helginni í Húnavatnssýslum og Skagafirði. Velkomin öll með börnin ykkar eða barnið í sjálfum ykkur!Byggðasafnið verður opið á morgun frá kl. 13-17.

Fyrirlestur um Morðbrennuna á Illugastöðum 1828 og síðustu aftökuna á Íslandi 1830.

Húsfyllir var á fyrirlestri á vegum Byggðasafnsins í Safnaðarheimili Hvammstangakirkju fyrr í dag.

Þar talaði Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðingur um Morðbrennuna á Illugastöðum 1828 og síðustu aftökuna á Íslandi 1830.

Þökkum við öllum hjartanlega fyrir komuna og vonumst til þess sjá alla á ný er næsti fyrirlestur fer fram.

Takið frá 23. febrúar en þá heldur Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðingur fyrirlesturinn „Stolið frá Sýslumanni. Þjófnaðarmálið í Hvammi 1835.“